Grein úr Morgunblaðinu 23.október 2014:

“Trackwell þjónustar langflest útgerðarfyrirtæki á Íslandi með hugbúnaðarlausnum sem skila þeim aukinni hagræðingu og yfirsýn þannig að þau geti skipulagt reksturinn betur en ella. Félagið hefur tvöfaldað umsvif sín í lausnum byggðum á rafrænum afladagbókum á síðustu tveimur árum.

„Við veitum útgerðum yfirsýn yfir veiðiferðir og bjóðum upp á rekjanleika sjávarafurða frá veiðislóðum og inn í vinnslu eða á markaði,“ segir Steingrímur Gunnarsson, sölustjóri Trackwell. Fyrirtækið hefur um árabil boðið upp á hugbúnaðarlausnir fyrir sjávarútveginn sem byggjast á rafrænum afladagbókum.

Öllum íslenskum fiskiskipum með kvóta, sem eru um 300 talsins, er skylt að nota rafræna afladagbók til þess að miðla upplýsingum til Fiskistofu. Í þeim tilgangi hefur útgerðum verið afhent afladagbók sem Trackwell vann fyrir Fiskistofu.

Í afladagbókina eru skráðar staðsetningar kasta, afli, fisktegundir og fleira. „Útgerðirnar geta svo keypt viðbótarútgáfu sem kallast Trackwell Maritime. Hún gefur þeim aðgang að gögnum um eigin skip sem þau geta nýtt til þess að hafa aukna yfirsýn og skipuleggja frekari ráðstöfun á afla. Í Maritime-útgáfunni eru staðsetningar og aðrir þættir skráðir sjálfkrafa í kerfið og hægt er að skoða sögu fyrri veiðiferða í sérstökum skýrslum. Gögnin koma jafnóðum í land og notendur geta skoðað þau í gegnum vefviðmót sem varið er með notandanafni og lykilorði,“ segir Steingrímur.

Einnig er hægt að fá smáforrit fyrir snjallsíma. „Með einum smelli má sjá staðsetningar skipanna og afla um borð. Aðgangur að gögnunum er svo geymdur í símanum.“

morgunbladid23okt

Aukin hagræðing og yfirsýn

Trackwell býður einnig upp á viðbót við Maritime-lausnina sem ber heitið Afurðarstjóri. „Afurðarstjórinn heldur utan um skráningar á körum eða kössum og hentar fyrir ísfiskskip, uppsjávarskip og vinnsluskip,“ segir Steingrímur.

„Einnig er haldið utan um viðbótarþætti eins og verð, stærðarflokka og vinnslugerðir, auk gæðaþátta eins og átuhlutfalls í uppsjávarfiski, hitastigs og fleira sem nýtist við ákvörðun um frekari vinnslu.“

Afurðarstjórinn sækir gögn frá afladagbókinni um borð í skipinu og tengir þær upplýsingar við afurðarskráningarnar.

„Framleiðslustjóri í landi fær yfirlit um áætlað löndunarmagn, gæði og skiptingu niður á veiðidaga. Þannig er hægt að ákveða

fyrr á hvaða markaði aflinn nýtist best. Þeir viðskiptavinir sem hafa innleitt kerfið að fullu hafa séð mikla hagræðingu við aukna yfirsýn og samtengingu upplýsinga,“ útskýrir Steingrímur.

Langflestar stærri útgerðir á Íslandi eru í viðskiptum við Trackwell. Steingrímur áætlar að 80% af stærri útgerðum á Íslandi nýti sér lausnir félagsins. Þá er Trackwell með um 90 viðskiptavini í Noregi og nokkra í Kanada og á Grænlandi.

Að sögn Steingríms hefur verið mikill vöxtur í sölu Maritime-sjávarútvegslausna frá Trackwell. „Við höfum tvöfaldað umsvif okkar í lausnum byggðum á afladagbókum á síðustu tveimur árum.“

Rekjanleiki eykur verðmæti

Lausnirnar gera mönnum kleift að auka rekjanleika fisks. „Framleiðendur geta notað okkar kerfi til að fá QR-kóða sem inniheldur upplýsingar um vöruna og senda með henni,“ segir Steingrímur. „Ef fiskurinn er seldur beint á markaði erlendis

er hægt að prenta út QR-kóða og senda með honum. Kaupendur geta skannað kóðann með snjallsíma og fengið upplýsingar um fiskinn og séð á korti hvar hann var veiddur. Fari fiskurinn beint á veitingastaði er hægt að setja QR-kóðann á matseðil dagsins. Þá getur veitingahússgestur séð hvar fiskurinn var veiddur og á hvaða bát, á meðan hann bíður eftir matnum.“ Dæmi um slíka lausn er kerfi sem Trackwell þróaði fyrir fyrirtækið Icelandic Fish Export sem heldur utan um allar upplýsingar tengdar framleiðsluferli fisks. Icelandic Fish Export vinnur nú að tæknilausn sem miðlar upplýsingunum til neytenda. Steingrímur segir rekjanleika auka verðmæti og seljanleika vöru á ákveðnum mörkuðum. „Meðvitund um sjálfbærni í sjávarútvegi er að aukast hjá neytendum í Evrópu og Bandaríkjunum. Með bættum upplýsingum geta neytendur fengið fullvissu um að varan sem þeir kaupa uppfylli öll skilyrði um ferskleika og sjálfbærni.“ Hann bendir á að vottunaraðilar geri sífellt meiri kröfur til fyrirtækja í matvælaiðnaðinum.

Tvö spennandi verkefni í þróun

Að sögn Steingríms vinnur Trackwell að tveimur nýjum spennandi verkefnum á þessu sviði. Annað þeirra er unnið í samstarfi við sprotafyrirtækið Marsýn sem sérhæfir sig í að hanna og byggja spálíkan sem lýsir ástandi sjávar í kringum Ísland. „Spálíkanið getur sagt fyrir um sjávarhita, strauma, seltu, ölduhæð og fleiri þætti þrjá til fimm daga fram í tímann. Þessir þættir hafa áhrif á hvar fiskurinn heldur sig og því getur þetta sparað mikið við leit. Viðskiptavinir okkar geta nýtt þessar spár og borið saman við eigin veiðar og fyrri sögu,“ segir Steingrímur.

Hitt verkefnið er unnið í samstarfi við Tækniþróunarsjóð, AVS og nokkrar útgerðir. Það ber vinnuheitið „Framlegðarstjórinn“ og gengur út að meta framlegð veiða meðan á þeim stendur. Hluti þess varðar olíunotkun skipa. „Viðskiptavinir geta fylgst með olíukostnaði, nánast í rauntíma. Með því að tengja olíunotkun við úthaldið má bera saman meðalolíunotkun í mismunandi veiðiferðum og tengja við siglda vegalengd, hraða, veiðarfæri, afla og togtíma,“ segir Steingrímur að lokum.

Brynja Björg Halldórsdóttir brynja@mbl.is

 

Hafðu samband

Hafðu samband í dag til að fá meiri upplýsingar um þjónustu okkar.

+354 5100 600
Trackwell
Laugavegi 178
105 Reykjavík, Iceland

Fréttir

Haustverkin í Tímon

Við vitum að það er komið haust þegar skólarnir byrja, laufin fara að falla og sumarstarfsmenni hætta einn af öðrum. Eitt af haustverkunum í Tímon er einmitt að fara yfir starfsmanna listann og setja sumarstarfsmennina í hópinn hættir starfsmenn. Hér...

read more

Allt smurt og flotinn í lagi

Við vitum hversu mikilvægt er að sinna viðhaldi og ekki síst hjá fyrirtækjum sem eru með mörg ökutæki í sínum flota. Viðhaldsvöktun Flota tryggir að fyrirbyggjandi viðhald sé framkvæmt á réttum tíma og eykur þannig afkastagetu tækja og minnkar líkurnar á...

read more

Gleðilega sól og Tímon

Ó, blessuð vertu sumarsól, mikið er gaman að sjá þig í Reykjavík. Við fengum fyrirspurn frá fyrirtæki sem ætlar að loka hjá sér eftir hádegi og gefa starfsmönnum frí. Þau vildu vita hvernig væri hægt að búa til stimplun á alla starfsmenn. Það er hægt með hópstimplun...

read more